5.7.2006 21:51

Miðvikudagur, 05. 07. 06.

Las bakþanka eftir Guðrúnu Ásmundsdóttur í Fréttablaðinu. Hún virðist álita, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hafi þurft leyfi Þingvallanefndar 5. júní, þegar hann tilkynnti blaðamönnum og alþjóð fyrir framan Þingvallabæinn, að hann mundi láta af embætti forsætisráðherra og formennsku í Framsóknarflokknum. Mætti ætla af þessum bakþönkum Guðrúnar, að Þingvallanefnd hefði ákveðið að boða landsstjórn Framsóknarflokksins til fundar í bústað forsætisráðherra í Þingvallabænum.

Þetta er auðvitað fjarri öllum sanni eins og sú skoðun Guðrúnar, að aðstaða forsætisráðherra í Þingvallabænum eigi eitthvað skylt við það, hvort prestur búi þar eða ekki. Það var í upphafi áttunda áratugarins, sem ákveðið var að stækka Þingvallabæinn og skapa þar aðstöðu fyrir forsætisráðherra og síðan er það undir þeim, sem því embætti gegnir hverju sinni, hvernig hann nýtir þessa aðstöðu og hefur Þingvallanefnd engin afskipti af því.

Ef þetta hefur átt að vera hótfyndni hjá Guðrúnu, missir hún marks vegna fáfræði hennar um ráðstöfun á Þingvallabænum og afskipti Þingvallanefndar af því, sem forsætisráðherra tekur sér fyrir hendur í  opinberum sumarbústað sínum.