25.6.2006 17:49

Sunnudagur, 25. 06. 06.

Fór austur í Fljótshlíð á leiðinni þangað heyrði ég enn fjallað um bréf dómsmálaráðuneytisins, sem sent var að ósk ríkislögreglustjóra til Bandaríkjanna, í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins. Nú var málið borið undir Sigurð Líndal, prófessor emeritus, sem taldi einsýnt, að ég bæri ábyrgð á þessu ráðuneytisbréfi eins og öðrum og sagðist fréttamaðurinn hafa borið þetta atriði undir fleiri lögspekinga og væru þeir allir sama sinnis. Ég hélt, að það þætti ekki fréttnæmt eða sérstakt rannsóknarefni, að ráðherra bæri ábyrgð á bréfum úr ráðuneyti hans. Sigurður Líndal taldi uppsetningu bréfsins vera óheppilega, ef ég skildi hann rétt - í stað þess að hafa beiðni ríkislögreglustjóra í meginmáli ráðuneytisbréfsins hefði bréf hans átt að vera fylgiskjal með bréfi ráðuneytisins. Þetta er að sjálfsögðu matsatriði  við opinbera skjalagerð. Sigurður taldi langsótt, að bréfið ylli vanhæfi mínu eða setts ríkissaksóknara í Baugsmálinu.

Þegar ég var í heyskap úti á túni við traktorinn hringdi fréttamaður hljóðvarpsins og vildi ræða við mig um bréfið, hann heyrði þó tæplega í mér fyrir vélarhávaða. Ég taldi ekkert óeðlilegt við þetta bréf. Síðan barst mér símtal og tölvubréf frá Fréttablaðinu um þetta sama mál og byggðust spurningarnar á ummælum Sigurðar Líndals. Ég sagði það vissulega verðugt íhugunarefni, hvort fella ætti efni tilmæla af þessu tagi inn í meginmál ráðuneytisbréfs eða senda tilmælin sem fylgiskjal með ráðuneytisbréfi. Hvor aðferðin væri heppilegri en hin væri matsatriði.