24.5.2006 22:21

Miðvikudagur, 24. 05. 07.

Fylgi flokkanna í Reykjavík breytist lítið samkvæmt Gallup í dag - hagur framsóknar vænkast þó aðeins.

Evrópunefnd kom saman í hádeginu.

Við Rut fórum klukkan 16.30 í Borgarleikhúsið og vorum þar við slit Listaháskóla Íslands (LHÍ) í boði Hjálmars H. Ragnassonar rektors en undir forystu hans hefur skólinn vaxið og dafnað hraðar en ég held, að nokkur hafi vænst, þegar hann tók til starfa árið 1999. Bar skólaslitaathöfnin þess merki af hve miklum metnaði allt er gert innan veggja hans - nú útskrifuðust kennarar í listgreinum, tónlistarmenn, myndlistarmenn, hönnuður og þar á meðal arkitektar, listdansarar og leikarar. Við athöfnina voru rektorar norrænu arkitektaskólanna.

Brýnt er að tekið verði af skarið um framtíðarsamstað LHÍ, svo að það markmið náist, sem býr að baki hugmyndinni um sameinaðan háskóla allra listgreina, að hinn dýnamiski sameinaði kraftur þeirra allri auki enn á sköpunarþróttinn í einstökum greinum. Ég kann vel við skólann í nágrenni dómsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins við Sölvhólsgötu og þar er raunar kjörinn staður fyrir hann allan, ef vilji er til að hafa hann í nágrenni miðborgarinnar.

Þegar ég hugsa um lóðamál LHÍ minnist ég fundar í menntamálaráðuneytinu, þegar mér var sagt frá því, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, hefði boðið skólanum lóð á Miklatúni. Ég sagði viðmælendum mínum, að við þetta boð yrði aldrei staðið - LHÍ myndi aldrei rísa á þessum stað. Raunar skil ég ekki enn þann dag í dag, hvernig borgarstjóra datt í hug að blekkja stjórnendur LHÍ með svona gylliboði, án þess að í raun nokkuð stæði á bak við það. Þannig hefur Reykjavíkurborg því miður verið stjórnað í 12 ár undir R-listanum - einhverju er slegið fram, án þess að fyrir því sé nokkur önnur innistæða en viðleitni til að klóra í bakkann.