20.5.2006 19:26

Laugardagur, 20. 05. 06.

Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík, kýs að gera farsælt ríkisstjórnarsamstarf að umræðuefni  í borgarstjórnarkosningabaráttunni, væntanlega til að ná í atkvæði, sem ella mundu renna til Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn eigi einnig að njóta þess, sem ríkisstjórnin hafi áorkað. - ekki aðeins Sjálfstæðisflokkurinn.

Vandinn við þennan málflutning er, að kjósendur í Reykjavík eru að taka afstöðu til setu Framsóknarflokksins í borgarstjórn eftir 12 ára samstarf hans innan R-listans, það er við Samfylkinguna og vinstri/græna síðan þeir flokkar komu til sögunnar. Það sýnir ekki mikla trú á afrek undir merkjum R-listans, að grípa til þess ráðs viku fyrir kjördag, að biðla til kjósenda í nafni ríkisstjórnarsamstarfsins.

Ef framsóknarmenn vilja finna blóraböggul í tilefni af skoðanakönnunum um fylgi flokkanna í borgarstjórnarkosningunum, ættu þeir að snúa sér að samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn undir merkjum R-listans.