17.5.2006 23:13

Miðvikudagur, 17. 05. 06.

Hlustaði í hádeginu á dr. Guðrúnu Þórhallsdóttur í hugvísindadeild Háskóla Íslands flytja erindi í Rótraý-klúbbi Reykjavíkur um það, sem kallað er jafnrétti í tungumálinu og snýst um feminískar kröfur, sem byggjast á því, að stundum geti verið óljóst, hvort átt sé við karlmenn eingöngu eða bæði kynin, þar sem karlkyn hafi hlutleysishlutverk, það er karlkynsmyndir fornafna séu notaðar, þegar kynferði einstaklinga er ekki tilgreint: hlær best sem síðast hlær.

Þetta er forvitnilegt íhugunarefni, en viðleitni til að gera orð hlutlaus leiðir oft til sérkennilegrar niðurstöðu eins og þegar í ensku er hætt að tala um chairman - fundarstjóra - á fundum og þess í stað gjarnan notað orðið chair - stóll - í staðinn. Ég hef verið á fundum erlendis, þar sem enskumælandi fólk lýsir því við upphaf ræðu sinnar, að það mótmæli breytingum af þessu tagi og vilji frekar ávarpa mann en stól - þá grípa sumir til orðsins chairperson.

Ég man eftir því, að Eiður Guðnason sendiherra, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og fréttamaður, ritaði um það vel rökstudda grein eða flutti um það ræðu, að sér þætti fráleitt að tala um þingkonu - orðið þingmaður næði jafnt til karla og kvenna á þingi. Við sjáum, að orðið þingmaður er nú á hröðu undanhaldi sem samheiti, því að orðið þingkona er æ oftar notað um konur í hópi þingmanna.

Á Rótarý-fundinum var vakið máls á því, að sérstaklega væri bagalegt, að ekki væru notuð önnur orð en ráðherra og sendiherra um konur í þeim stöðum. Ólafur Þ. Þórðarson alþingismaður ávarpaði Salóme Þorkelsdóttur forseta alþingis aldrei öðru vísi en herra forseti á sinni tíð og var ekki gerð athugasemd við það - nú hnussar í þingmönnum, ef einhver leyfir sér að segja annað en frú forseti, virðulegi forseti eða hæstvirtur forseti, ef kona situr í forsetastóli á þingi - gott ef ekki er slegið í forsetabjöllu, verði einhverjum á að segja herra forseti við konu á forsetastóli. Hvað yrði sagt, ef einhver tæki upp á því að segja: Herra/frú stóll?

Fór klukkan 20.00 í Grafarvogskirkju, þar sem Lögreglukór Reykjavíkur efndi til glæsilegra og skemmtilegra tónleika með þátttöku góðra gesta. Kirkjan var þéttsetinn og var kórnum og gestum hans fagnað vel og innilega.