15.5.2006 18:40

Mánudagur, 15. 05. 06.

Vegna utanferðar í síðustu viku las ég ekki blöðin sem skyldi en eftir að mér hafði verið bent á, að Þorsteinn Pálsson hefði skrifað góðan leiðara í Fréttablaðið föstudaginn 12. maí til að setja ofan í við Berlingske Tidende vegna skrifa blaðsins um Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, fletti ég blaðinu. Leiðarinn var ágætur.

Þegar ég hafði lesið hann sá ég til mín vísað í ritstjórnarhorni á skoðanasíðu Fréttablaðsins og þar sagði einhver með netfangið bjorn@frettabladid.is: „Hitt vekur athygli að í færslu á netsíðu sinni á miðvikudag (10. maí) segist Björn vita að Blaðið hafi rætt við Gísla (Helgason varaborgarfulltrúa frjálslyndra). Er það degi áður en viðtalið birtist. Strengurinn milli Björns og Blaðsins virðist því stuttur.“

Þarna sá ég sem sagt, að fimmtudaginn 11. maí hefði Blaðið birt viðtal við Gísla Helgason og spurt hann um þá tillögu hans að flytja Reykjavíkurflugvöll á Álftanes, forsetann í Viðey og íbúa Álftaness í viðlegubúðir á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Ég hafði vakið máls á þessari tillögu Gísla hér á síðunni 5. maí, sama daginn og grein hans birtist í Fréttablaðinu, og síðan undrast ég 8. maí, að enginn fjölmiðill skuli hafa vakið máls á tillögu Gísla sem fréttaefni. Mér barst síðan ábending um, að Blaðið hefði sagt frá tillögu Gísla og sagði ég frá því hinn 10. maí. Þau orð túlkar blaðamaður Fréttablaðsins á þann furðulega hátt, að ég hafi vitað um óbirt viðtal Blaðsins við Gísla og dregur síðan af því ályktun um stuttan streng á milli mín og Blaðsins. Þessi barnalega blaðamennska dæmir sig sjálf.

En hvað segir Gísli Helgason í viðtali við Blaðið? Hann staðfestir, að hann telji flugvöll eiga heima á Álftanesi - þrátt fyrir þessa skoðun sína segist hann sammála stefnu flokks síns í flugvallarmálinu, það er að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni! Hann hafi skrifað grein sína í Fréttablaðið „meira í gríni en alvöru" og hún sé alls ekki „tákn um kofning innan F-listans.“ Með grein sinni „hafi hann viljað gagnrýna þá mikl(u) áherslu sem umræðan um flugvöllinn hafi fengið í aðdraganda kosninga.“ Greinin sé „háðsádeila á alla þessa umræðu. Mér finnst umræðan orðin svo yfirgengileg að hún er byrjuð að skyggja á mikilvægari málaflokka.“

Spyrja má, hvort viðtalið við Gísla sé eins og grein hans meira grín en alvara, því að í hverju orði ræðst hann í raun að Ólafi F. Magnússyni, efsta manni F-listans, sem lítur á flugvöllinn í Vatnsmýrinni sem sitt helsta haldreipi í kosningabaráttunni - umræður um flugvöllinn séu einmitt til þess fallnar að styrkja stöðu sína og F-listans.