13.5.2006 19:18

Laugardagur, 13. 05. 06.

Flaug frá Helsinki kl. 12.30 til Stokkhólms og þaðan með Icelandair á áætlun klukkan 14.10 en lent var 15. 15 á Keflavíkurflugvelli - hafði þá farið í sex flugferðir síðan ég hélt utan á fimmtudag.

Ég keypti mér frönsk blöð á flugvöllunum til að kynna mér stöðuna í Clearstream-málinu. Það sýnist versna fyrir þá Jacques Chirac forseta og Dominique de Villepin forsætisráðherra eftir því sem meiri upplýsingar berast um afskipti þeirra. Upplýsingarnar bera þess merki, séu þær sannar, að þeir hafi beint rannsókninni að Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra og líklegum forsetaframbjóðanda á næsta ári. Sarkozy er sagður hafa velt fyrir sér að segja af sér ráðherrembætti en í dag bárust fréttir um, að hann ætlaði að sitja áfram.

Fréttir í ljósvakamiðlunum hér heima bera þess merki, að hiti sé að færast í kosningabaráttuna til sveitarstjórna. Ég fagna því, hve sjálfstæðismenn hér í Reykjavík og annars staðar halda vel á málum.

Mér barst tölvupóstur úr Fljótshlíðinni, sem ég las á Arlanda flugvelli við Stokkhólm, þar sagði, að gimbrin mín væri borin og nú ætti ég svartan, hyrndan hrút.

Séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda, sem ég nefndi hér á síðunni 6. maí sendi mér tölvubréf í dag og segir, að það hafi verið kæruleysi hjá sér að titla sig sem prest, þegar hann var að finna að stefnu Samfylkingarinnar gagnvart innflytjendum, enda væri hann orðinn vinsuti/grænn. Ábending mín um þetta efni hafi verið rétt.