8.5.2006 20:35

Mánudagur, 08. 05. 06.

Blaðið birti í dag pistil minn um spennuna í frönskum stjórnmálum. Clearstream-málið heldur áfram þar í landi, því að dómararnir, sem eru að rannsaka það, hafa ekki lokið störfum og eru að leita sannleikans um það, hver það var, sem kom þeim söguburði af stað, að Nicolas Sarkozy innaríkisráðherra væri með leynireikning og féð á honum tengdist sölu á sex herskipum til Tævans.

Mig undrar, að enginn fjölmiðill skuli gera neitt með þá tillögu Gísla Helgasonar, varaborgarfulltrúa F-listans, sem birtist í grein í Fréttablaðinu, að flytja skuli flugvöllinn úr Vatnsmýrinni á Álftanes en forseti Íslands skuli fluttur í Viðey og íbúar á Álftanesi í viðleguhús á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þar til þeir geti sest að í Vatnsmýrinni. Af fálæti fjölmiðla má ráða, að þeir vilji ekki koma F-listanum illa, en hann segir það sér helst til ágætis, að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Spyrja má, hvort fjölmiðlar hefðu þagað þessu þunna hljóði, ef framsóknarmenn ættu í hlut, en í fjölmiðlum er því mjög hampað, að ágreiningur er milli framsóknarmanna um, hvort flytja eigi flugvöllinn út á Löngusker.