7.5.2006 21:54

Sunnudagur, 07. 05. 06.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sagði í útvarpsfréttum í dag, að í umræðum Reykvíkinga um framtíðarflugvöll á Lönguskerjum hefði gleymst eitt mikilvægt atriði, að skerin væru hluti af Seltjarnarnesi en ekki Reykjavík. Og þessi flugvöllur, sem er aðalkosningamál Björns Inga Hrafnssonar og Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík - sjálft þjóðarsáttarmálið - hvernig má þetta vera?

Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, var í Silfri Egils í dag og fór á kostum, þegar hann ræddi um metsölubókina Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, en að sögn Egils er Jakob höfuðhugmyndafræðingur þess, sem Andri Snær andmælir. Mér finnst, að það þurfi mjög sterk rök til að hrekja það, sem Jakob sagði í þættinum og ég er honum innilega sammála, þegar hann leggur áherslu á, að í þessu efni er ekki unnt að ræða um annaðhvort/eða - það er nýtingu raforku til álframleiðslu/eða eitthvað annað. Miklu nær sé að ræða um bæði/og.