2.5.2006 21:48

Þriðjudagur, 03. 05. 06.

Ingvi Hrafn Óskarsson settist sem varamaður fyrir mig á þing, þegar ég fór til Frakklands, svo að ég þarf ekki að hafa hugann við atkvæðagreiðslur á þinginu.

Það var stuttur borgarstjórnarfundur í dag - þar sem gengið var frá reikningum borgarinnar. Þeir eru brenndir sama merki og öll fjármálastjórn R-listans - skuldirnar hækka og útgjöldin.

Öll meginstefnumál okkar sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar 27. maí hafa verið kynnt og bera þau þess merki, hve vel hefur verið vandað til allra verka undanfarin ár af einhuga borgarstjórnarflokki, þar sem allir leggja sig fram sem þeir mega til að ná sem bestum árangri. Hefur verið einstaklega ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að starfa í þessum samhenta hópi síðustu fjögur ár og á hann svo sannarlega skilið að fá góðan hljómgrunn í komandi kosningum.

Ég bætti nokkrum myndum úr Frakklandsferðinni inn á myndasíðuna hér á vefsíðunni - bæði þar sem um er að ræða opinberar myndir og úr einkalífinu.