18.4.2006 21:56

Þriðjudagur, 18. 04. 06.

Á fundi ríkisstjórnarinnar kl. 09. 30 lagði ég fram tillögu um leigu á tveimur þyrlum fyrir landhelgisgæsluna vegna yfirvofandi brottfarar þyrlusveitar varnarliðsins og var hún samþykkt.

Er þetta fyrra skrefið af tveimur, það er bráðabirgðalausn, þar til gengið verður frá kaupum á þyrlum til frambúðar en það tekur sinn tíma að ljúka þeim viðskiptum og fá þyrlur afhentar.

Ég tek undir með félögum mínum í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, að það er heldur lágkúrulegt hjá frambjóðendum framsóknar til borgarstjórnar að halda því fram, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson telji lagningu Sundabrautar „sjálfhætt í bili“ eins og þeir orða það, þegar Vilhjálmur gerir ekki annað en lýsa þeim langa tíma, sem enn á eftir að líða, þar til í lagningu brautarinnar verður ráðist, vegna þess að framsóknarmenn og aðrir R-listamenn hafa ekki getað komist að niðurstöðu um skipulagsmál vegna brautarinnar.

Mér sýnist á yfirboðunum, sem einkenna kosningaloforð framsóknarmanna vegna borgarstjórnarkosninganna, að þeir vilji nú fara dýrustu leiðina yfir Elliðavoginn, eða í botngöngum. Þá velja þeir einnig Löngusker fyrir nýjan flugvöll, sem kostar sinn skilding. Hvernig skyldu þeir ætla að fjármagna þetta og allt hitt, sem þeir lofa?

Annars var mér bent á það í dag, að engu sé líkara en frambjóðendur Framsóknarflokksins til borgarstjórnar vilji alls ekki hampa nafni flokks síns, því að hans sé hvergi getið í auglýsingum þeirra eða tilkynningum, þar sé aðeins talað um X-B eða exbé. Ég hef ekki kynnt mér til hlítar, hvort þetta sé rétt, en í tilkynningunni til árása á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson er aðeins talað um B-listann en ekki minnst á Framsóknarflokkinn.