9.4.2006 21:55

Sunnudagur, 09. 04. 06.

Skoðaði í morgun nýtt þjónustuhús, sem er í smíðum við Þingeyrakirkju undir leiðsögn Erlendar Eysteinssonar á Stóru-Gilja. Síðan ókum við Ingimundur Sigfússon til Reykjavíkur.

Sérkennilegt að Samfylkingin skuli telja það sér til tekna að saka sjálfstæðismenn að hafa verið í 10 ára setuverkfalli í málefnum aldraðra og við séum fyrst að taka við okkur í þeim málum nú rétt fyrir kosningar. Í fyrsta lagi er einkennilegt, að stjórnmálamenn undrist, að aðrir stjórnmálamenn kynni kjósendum stefnu sína rétt fyrir kosningar. Í öðru lagi er engin innistæða fyrir þessum yfirlýsingum samfylkingarfólksins með vísan til stefnumörkunar okkar sjálfstæðismanna í áranna rás og til dæmis fyrir síðustu borgarstjórmarkosningar - þegar R-listinn glutraði þessum málum niður með óðagotssamningi rétt fyrir kjördag. Í þriðja lagi er það persónuleg móðgun við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að láta eins og hann hafi ekki haft áhuga á málefnum aldraðra eftir allt hið mikla starf, sem hann hefur unnið sem einn af forystumönnum hjá Eir.

Vert er enn og aftur að vekja athygli á því, hvernig Dagur B. Eggertsson, efsti maður Samfylkingarinnar, reynir að slá óþægileg mál út af borðinu með frösum eða tilraunum til að vera fyndinn á kostnað andstæðinga sinna. Raunar er hann frekar hlægilegur við þennan málflutning sinn en fyndinn.