25.3.2006 11:02

Föstudagur, 24. 03. 06.

Í ríkisstjórn lagði ég fram til kynningar, hvernig ég ætlaði að standa að því að komast að niðurstöðu um nýjan þyrlukost fyrir landhelgisgæsluna í bráð og lengd.

Síðdegis komu nemendur frá Viðskiptaháskólanum Bifröst á minn fund til að ræða við mig stöðuna í varnarmálum og ræddum við saman í tæpan klukkutíma. Mér finnst nauðsynlegt að árétta í slíkum viðræðum, að ekki sé við því að búast, að íslensk stjórnvöld dragi úr skúffum sínum hernaðarlegt eða herfræðilegt mat á varnarþörf lands og þjóðar. Þau hafi einfaldlega ekki haft slíkt mat á könnu sinni, Íslendingar hreyki sér einmitt af því, að hafa ekki eigin her - hvers vegna eigi þá að búast við því, að stjórnvöld þeirra séu að velta fyrir sér hlutverki hers? Stjórnvöld eigi hins vegar að sjá um löggæslu og um hana séu skýrar áætlanir.

Ég þakka Ólafi Teiti Guðnasyni á Viðskiptablaðinu þrautseigju hans við að benda á léleg vinnubrögð á íslenskum fjölmiðlum eða ómaklega meðferð þeirra á mönnum og málefnum. Hann hefur oftar en einu sinni tekið upp hanskann fyrir mig og gerir það enn á þennan hátt í blaðinu í dag:

„Í síðasta pistli var bent á að NFS hefði ranglega fullyrt í liðinni viku, að Björn Bjarnason hefði brotið jafnréttislög við skipan hæstaréttardómara haustið 2003. Enginn dómur liggur fyrir um það heldur aðeins álit kærunefndar jafnréttismála - þeirrar sömu og áleit að Valgerður H. Bjarnadóttir hefði brotið jafnréttislög við ráðningu leikhússtjóra á sínum tíma.

En NFS er ekki af baki dottin. Nei, stöðin fullyrti þetta aftur í aðalfréttatíma sínum í fyrradag, eins og ekkert væri sjálfsagðara. - Sagt er að sannleikurinn geri menn frjálsa, en ætli í þessu máli sé ekki óhætt að spá því að lygin geri þá brátt hása.

***

DV segir kosti og galla á fólki í föstum dálki í blaðinu, eða fær nánar tiltekið til þess þrjá einstaklinga sem þekkja vel til viðkomandi. Efst í dálkinum dregur blaðið síðan saman fáeina kosti og galla sem fólk nefnir í viðtölunum sem birt eru fyrir neðan. Téður Björn var nýlega tekinn fyrir með þessum hætti í blaðinu - en þá tók blaðið upp á því. sem er algjör nýbreytni, að búa sjálft til ýmsa galla á honum í samantektinni efst. Enginn viðmælandi hafði nefnt neitt af því sem þar var búið til.“