18.3.2006 21:38

Laugardagur, 18. 03. 06.

Fór í kl. 10.30 á fund í Valhöll, þar sem Geir H. Haarde utanríkisráðherra greindi frá stöðunni í varnarmálum.

Var kl. 12.30 á NFS og ræddi um varnarmálin við Þóri Guðmundsson í þættinum Skaftahlíð.

Sá í sjónvarpsfréttum mynd frá fundi svonefndrar Þjóðarhreyfingar (ekki vantar sjálfstraustið!) vegna innrásarinnar í Írak. Á myndinni sat fjöldi manns við háborð og minnti hún á gamaldags baráttfund marxista fyrr á árum eða fundamyndir frá Kúbu, þegar þykir nauðsynlegt að sýna óvenju breiða samstöðu - rifjaði með öðrum upp baráttufundi á tíma kalda stríðsins. Sömu sögu er að segja um myndirnar frá Ingólfstorgi, þar sem félagar í Samtökum herstöðvaandstæðinga hittust í dag til að minnast dagsins. Stundum dettur manni í hug, að skemmtilegt væri að geta varðveitt gömul pólitísk atvik úr fortíðinni, en líklega er best að láta sjónvarpið geyma þau í safni sínu.

Í fjölmiðlum er látið eins og stúdentamótmæli í París þessa daga sé endurtekning á því, sem þar gerðist árið 1968. Í The Financial Times var málið borið undir Daniel Cohn Bendit, einn helsta forsprakka mótmælanna 1968. Hann sagði:

“The young people have a negative vision of the future. May 1968 was an offensive movement, with a positive vision of the future, but today’s protests are all against things. They are defensive, based on fear of insecurity and change.”

Fyrir nokkrum dögum sagði ég frá því, að Bergljót Davíðsdóttir, blaðamaður á DV,  hefði gagnrýnt mig harðlega í leiðara blaðsins vegna þess að ég hefði eflt sérsveit lögreglunnar í stað þess að beina lögreglunni alfarið að umferðareftirliti. Björgvin Guðmundsson, ritstjóri DV, er ekki sömu skoðunar og Bergljót. Hann segir í leiðara DV í dag:

„Undanfarna mánuði hefur Björn Bjarnason lýst nauðsyn þess að íslensk yfirvöld séu í stakk búin til að takast á við erlenda glæpahringi. Ráðherrann hefur oft verið gagnrýndur fyrir að mála raunveruleikann dökkum litum. Framsýni hans hefur þó oftast reynst þjóðinni vel. Það er nauðsynlegt að æðsti yfirmaður lögreglu- og dómsmála í landinu sjái þróunina í sínum málaflokki fyrir. Aðeins þannig er tryggt að lögregluyfirvöld geti á trúverðugan hátt tekist á við skipulagða glæpastarfsemi eins og í tilviki Lítháanna þriggja sem nú sitja í gæsluvarðhaldi.“

Í leiðaranum vitnar Björgvin í eftirfarandi ummæli, sem voru höfð eftir mér í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 17. mars:

„Ég tel ástæðu til þess að líta á þetta þannig að við eigum þarna í höggi við alþjóðlegan glæpahring og það eigi að umgangast þetta mál á þennan veg. Ég hef t.d. lagt til að lögreglan fái heimildir undir merkjum greiningardeildar til þess að leggja mat á hættu á slíkri starfsemi og gera þá ráðstafanir eins tímanlega og kostur er til þess að koma í veg fyrir að menn geti hreiðrað um sig hér á þennan hátt. “