15.3.2006 21:11

Miðvikudagur, 15. 03. 06

Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk’ um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.

Um héraðsdóm í Baugsmáli  í dag ætla ég ekki að ræða. – jafnvel lýsing mín á staðreyndum, getur valdið uppnámi.

Þótt Bandaríkjamenn hafi tilkynnt í dag, að þeir ætli ekki að hafa orrustuþotur með fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli, heldur varnarsamstarfið áfram. Frá mínum bæjardyrum séð hefur lengi verið ljóst, að við yrðum að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum en á tímum kalda stríðsins. Við verðum einnig að meta hættuna, sem að öryggi okkar steðjar á annan hátt en þá var gert.

Ríkisstjórnin kom saman í alþingishúsinu í dag kl. 17.00 – en við endurbætur á því var innréttað fundarherbergi fyrir hana í þinghúsinu, þar sem á sínum tíma var skrifstofa forseta Íslands en síðan mötuneyti þingsins, þar til það fluttist í nýja skálann. Ég veit ekki til þess, að fyrr hafi verið haldinn ríkisstjórnarfundur á þessum stað, en fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara til að ræða þá ákvörðun, sem Nick Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti Geir H. Haarde utanríkisráðherra fyrr um daginn símleiðis, að Bandaríkjaforseti hefði ákveðið, að frá með september nk. í síðasta lagi myndu bandarísku orrustuþoturnar hverfa frá landinu. Klukkan 15.00 í dag hitti bandaríski sendiherrann forsætisráðherra og utanríkisráðherra og skýrði þeim frá þessari niðurstöðu.

Geir H. Haarde skýrði þingflokki sjálfstæðismanna, sem kom saman klukkan 16.00 frá þessu, skömmu áður en fundur ríkisstjórnarinnar hófst. Rétt fyrir klukkan 18.00 var send út fréttatilkynning um málið og lauk ríkisstjórnarfundinum skömmu síðar, en þá var boðaður fundur í utanríkismálanefnd alþingis.