6.3.2006 22:59

Mánudagur, 06. 03. 06.

Flaug frá Ósló kl. 14.05 og lenti í Keflavík um kl. 16.00 í töluverðu hvassviðri - síðar um daginn varð vélin á leið til New York að snúa til baka, af því að hún varð fyrir eldingu.

Ég sá á netinu, að Dagur B. Eggertsson, efsti maður á væntanlegum lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum, telur, að auka þurfi löggæslu í miðborg Reykjavíkur, eftir að fréttir bárust af hnífstungum þar um helgina. Mér kom þessi yfirlýsing á óvart, því að ég minntist ummæla samflokksmanns hans, Helga Hjörvars, þingmanns og varaborgarfulltrúa, sem taldi hina mestu fásinnu að efla þyrfti sérsveit lögreglunnar og þar með löggæslu í Reykjavík. Sérsveitinni er einmitt ætlað að glíma við  ofbeldisfulla og vopnaða afbrotamenn. Helgi veittist að mér á alþingi  með þeim málefnalegu rökum, að ég skyldi ekki halda, að ég kæmist upp með að efla lögregluna á þennan hátt, þótt ég væri hrifinn af kvikmyndinni Die Hard  og héldi kannski, að ég væri Bruce Willis!

Með breytingu á skipulagi sérsveitarinnar 1. mars 2004 var stigið mikilvægt og árangursríkt skref til að auka löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu.

Sjónarmið Helga Hjörvars náðu því ekki fram að ganga og sérsveitin hefur verið efld stig af stigi síðan 2004. Dagur ætti að ræða við Helga í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar og einnig  á vettvangi flokksins við Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar (kjörinn með um 900 atkvæðum á um 500 manna fundi) - en varaformaðurinn flytur ávallt sömu ræðuna um, að ég fari villur vega, þegar ég ræði á alþingi um nauðsyn þess að efla löggæslu.

Ég veit, að Dagur er nýkominn í Samfylkinguna og honum hefur ef til vill ekki gefist tóm til að kynna sér sjónarmið flokksbræðra sinna þar - en vilji hann efla pólitískan stuðning við auka löggæslu ættu honum að vera hæg heimatökin á heimavelli í Samfylkingunni. Ég er hins vegar ekki alveg viss um, að hugur fylgi máli hjá Degi. Mig grunar, að afstaða hans til löggæslu sé nú jafntækifærissinnuð og afstaða hans til annars máls fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, þegar hann taldi ekki koma til greina að selja ríkinu Keldnalandið, enda mætti ekki hrófla við rannsóknarstöðinni að Keldum. Hver skyldi afstaða hans til þess máls vera nú?