2.3.2006 21:52

Fimmtudagur, 02. 03. 06.

Klukkan 11.30 var umræða utan dagskrár á alþingi um tálbeitur og fleira og má lesa ræðu mína hér á síðunni.

Klukkan 16.00 var ég í Iðnskólanum í Reykjavík en þangað hafði ég verið beðinn að koma til að ræða varnamál og var það skemmtilegur fundur, þar sem rætt var um öryggismál, hryðjuverkaógnina, innrásina í Írak, samskipti okkar við Bandaríkjamenn og Schengen-samstarfið. Ég hef aldrei séð eins margar myndir af sjálfum mér og hengdar höfðu verið upp á göngum skólans til að kynna fundinn og höfðu fundarboðendur greinilega lagt mikið á sig til að kynna viðburðinn sem best.

Fyrir fundinn hitti ég Baldur Gíslason skólameistara en Iðnskólinn í Reykjavík hefur dafnað vel undir hans stjórn. Innan skólans er unnið nýsköpunarstarf á mörgum sviðum og leggja stjórnendur hans áherslu á að ná til mjög fjölbreytts hóps nemenda. Nemendur eru auk þess framtakssamir eins og sýnir sig í boði þeirra til mín um að ræða þessi mál. Eiit er víst, ég hef alltaf mikla ánægju af því að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum um utanríkis- og öryggismál við þá, sem ekki eru á sama máli og ég, en nokkrir meðal fundarmanna voru greinilega í þeim hópi.

Birt var niðurstaða úr könnun Gallup á trausti til einstakra stofnana.

Gallup hefur frá árinu 1993 spurt um traust til stofnana og embætta. Í ár eru helstu breytingar þær, að traust til lögreglunnar hefur aukist mikið eða um 12 prósentustig. Traust til lögreglunnar hefur ekki mælst eins mikið síðan í ágúst '93.

Traust til Alþingis og dómskerfisins jókst einnig nokkuð eða um 8 prósentur. Traust til umboðsmanns Alþingis hefur minnkað um 5 prósentustig og er það eina embættið sem nýtur minna trausts nú en í síðustu mælingu.

Traust til heilbrigðiskerfisins jókst um 3 prósentustig en traust til ríkissáttasemjara og þjóðkirkjunnar stóð í stað.

Eftirfarandi tafla sýnir hve margir í könnuninni sögðust bera traust til viðkomandi stofnana:

Háskóli Íslands 86%

Lögreglan 79%

Heilbrigðiskerfið 73%

Umboðsmaður Alþingis 57%

Ríkissáttasemjari 56%

Þjóðkirkjan 55%

Dómskerfið 43

Alþingi 43%.