8.2.2006 20:23

Miðvikudagur, 08. 02. 06.

Evrópunefnd hittist á fundi í hádeginu. Eftir hádegi sannaðist síðan, að vís leið fyrir stjórnmálamann til að fá fyrstu frétt er að tala í véfréttar- eða spásagnarstíl um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB).

Á viðskiptaþingi sá Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fyrir sér, að Ísland yrði gengið í ESB árið 2015, þótt ekki teldi hann tímabært að taka til við umræður um aðild, enda ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, gladdist mjög yfir þessum orðum forsætisráðherra og taldi hann genginn í lið með Samfylkingunni, án þess að vitað sé hvaða stefnu hún hefur í Evrópumálum og síðan lét Ingibjörg Sólrún í ljós von um, að Sjálfstæðisflokkurinn sæi líka Evrópuljósið. Hvers vegna skyldi Ingibjörg Sólrún ekki beita sér fyrir því innan eigin flokks, að hann móti skýra Evrópustefnu?

Evrópunefnd með fulltrúum allra flokka er að ræða þessi mál í góðri sátt og ætlar að skila skýrslu undir árslok, ef allt gengur þar að óskum. Mér hefði þótt spennandi og fréttnæmt, ef á viðskiptaþingi hefði verið unnt að upplýsa þá, sem þar voru, og aðra um, hvernig Evrópusambandið yrði árið 2015.

Þegar Halldór Ásgrímsson spáði aðild Íslands 2015, gaf hann sér þá forsendu, að evran hefði orðið að gjaldmiðli Dana, Svía og Breta. Er líklegt, að það verði? Hvaða flokkur í Bretlandi berst fyrir slíku? Hvað með gagnrýni á evruna og  kröfur innan Evrulanda um að losna undan stjórn seðlabanka Evrópu? Eða umræður innan ESB um, að þar verði til sérstakur klúbbur Evrulanda?

Ástæðan fyrir því, að enginn stjórnmálaflokkanna hefur tekið ESB-aðild á stefnuskrá sína, er einföld: Engir hagsmunar knýja á um aðild. Atvinnulífið svonefnda hefur ekki áhuga á að ræða málið, af því að fyrirtækin eru almennt betur sett utan ESB á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið.

Markmið þeirra, sem stjórnuðu viðskiptaþinginu er, ef ég heyrði rétt, að Ísland standi best allra ríkja í mati á samkeppnishæfni árið 2015. Það markmið fellur einfaldlega ekki að þeirri skoðun, að Ísland verði þá gengið í Evrópusambandið. Eða getur einhver sýnt fram á það?