6.2.2006 22:36

Mánudagur, 06. 02. 06.

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru á dagskrá alþingis í dag og þar spurði Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna, mig spurninga varðandi greiningardeild lögreglunnar, sem ég skildi ekki til fulls, því að hann tók að tala um landráð varðandi samskipti við varnarliðið og síðan landráð samkvæmt almennum hegningarlögum og gaf þá til kynna, að forsætisráðherra og utanríkisráðherra þáverandi hefðu gerst sekir um þau vegna innrásanna í Afangistan og Írak. Sólveig Pétursdóttir, forseti alþingis, fann að þessum orðum Ögmundar, sem sagðist sjálfur bera ábyrgð á þeim!

Ég sagðist ekki treysta mér til að fylgja Ögmundi í þeim leiðangri, sem hann hóf með fyrirspurn til mín og var greinilega til þess eins ætluð að hann fengi tækifæri til að vera með landráðabrigsl úr ræðustól alþingis.

Enn sannaðist við þessi orð Ögmundar, hve umræður um öryggismál eru oft vanþroskaðar og erfitt að ræða þau á hlutlægan hátt. Engu er líkara en sumir telji, að í umræðum um varnir landsins og öryggi borgaranna skili bestum árangri að láta tilfinningar ná tökum á sér og tala eða skrifa í krafti þeirra. Upphrópanir eða landráðabrigsl eru fyrst og fremst til marks um málefnafátækt eða hræðslu við að ræða efni málsins.