27.12.2005 17:54

Þriðjudagur, 27. 12. 05.

Við hittumst ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem erum í bænum, auk forseta alþingis og ræddum stöðuna vegna kjaradóms og háværra sjónarmiða um, að þar hefði verið gengið of langt við hækkun launa æðstu embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa. Síðdegis var tilkynnt, að forsætisráðherra hefði ritað formanni kjaradóms bréf og óskað eftir endurskoðun á þeim þætti í niðurstöðu dómsins, sem lýtur að þjóðkjörnum fulltrúum.

Í 22.00 fréttum sjónvarps var rætt við Sigurð Líndal prófessor emeritus, sem taldi meinbaugi á því, að kjaradómur breytti niðurstöðu sinni, að minnsta kosti með vísan til þeirra raka, sem kæmu fram í bréfi forsætisráðherra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist frekar vilja sjá þing koma saman og breyta lögum en Sigurður Líndal sagði, að breyting á lögum myndi væntanlega eiga að leiða til afturvirkni til að svipta menn launum, sem þeim hefðu verið ákveðin og slíkt gæti talist hæpið. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstri/grænna, var hlynntur þeirri leið, sem forsætisráðherra valdi.