20.12.2005 21:32

Þriðjudagur, 20. 12. 05.

Annað hefti tímaritsins Þjóðmála kom út í gær og er í dag dreift til áskrifenda. Ég vil enn og aftur hvetja til áskriftar að þessu fjölbreytta tímariti. Auðvelt er að gera það í gegnum vefsíðu Andríkis - árgjaldið fyrir fjögur hefti er aðeins 3500 krónur.

Borgarstjórn samþykkti einum rómi á fundi sínum í dag tillögu R-listans um bann við dauaðrefsingum. Árni Þór Sigurðsson vinstri/grænum flutti framsögu fyrir tillögunni. Enginn annar kvaddi sér hljóðs og var tillagan síðan samþykkt einum rómi. Flutningur R-listans á þessari tillögu er til marks um, að enn geta menn komið sér saman um tillögur í borgarstjórn í nafni listans, þótt hann sé dauður.

Sagt var frá því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að við Hjördís Björk Hákonardóttir dómstjóri á Selfossi, hefðum náð samkomulagi um námsleyfi hennar í eitt ár, en að því loknu getur hún snúið að nýju til fyrri starfa eða samið um starfslok.

Er góð sátt milli okkar um þetta og tókst hún á fundi, sem við héldum 17. nóvember s.l. en Hjördís hvarf frá störfum dómstjóra 15. desember og hefur Hjörtur Aðalsteinsson verið settur í hennar stað.

Á sínum tíma lýsti ég mig vanhæfan til að skipa dómara í hæstarétt, þar sem Hjördís var meðal umsækjanda, vegna þess að þetta mál var óleyst, en það má rekja til umsóknar hennar um dómarastarf í hæstarétti og álits kæurnefndar jafnfréttismála í framhaldi af því.