18.12.2005 22:14

Sunnudagur, 18. 12. 05.

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur voru vel sóttir að venju, kl. 17.00 í Áskirkju. Var hljóðfæraleikurunum vel fagnað.

Fréttir berast um, að í Brussel hafi leiðtogum ESB-ríkja tekist að ná samkomulagi um fjárlög til 2013, án þess í raun sé vitað, hvað gerist á þeim tíma annað en sumir verða að borga meira og aðrir minna, auk þess sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi gegnt miklu hlutverki, þar sem hún stilliti sér upp  sem sáttasemjari milli Tonys Blairs og Jacques Chiracs. Þá er einnig sagt, að tekist hafi á fundi WTO í Hong Kong að ná samkomulagi um eitthvað, sem á að gerast eftir átta til 10 ár.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn  árið 2005 að ná samkomulagi um slíka hluti, því að líklega kemur það í hlut annarra að hrinda því í framkvæmd auk þess sem alltaf má semja að nýju.

Spennandi verður að sjá, hvernig Árvakri tekst að halda á málum, eftir að hann er kominn að rekstri Blaðsins  og Morgunblaðið boðar öflugustu blaðaútgáfu landsins. Morgunblaðið  er eini prentmiðillinn, sem stendur undir nafni, hinir eru að raða efni í kringum auglýsingar, fyrir utan DV, sem verður daglegra verra (DV) eins og Rúnar Kristjánsson sagði í Morgunblaðinu á dögunum og á hann örugglega eftir að fá í staðinn títuprjónstungu  frá ritstjórn DV. Reynsla mín er sú, að alltaf þegar ég nefni DV og gagnrýni hér á síðunni, er fundið að mér á einn eða annan veg í blaðinu. Vegsaukinn kemur úr ólíklegustu áttum.