15.12.2005 21:59

Fimmtudagur, 15. 12. 05.

Sat fundi fram eftir degi og fór síðan í útgáfuhóf til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem fagnaði með glæsibrag úgáfu þriðja bindis af ævisögu Halldórs Laxness. Elja Hannesar er með ólíkindum og saga hans um Laxness mun standa af sér allar árásir samtímamanna, enda byggjast þær á öðru en virðingu fyrir því, að Hannes Hólmsteinn skuli hafa tekið sér þetta mikla verk fyrir hendur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari hafnaði í dag kröfu verjenda Baugsmanna um að vísa Baugsmálinu frá dómi. Í forsendum úrskurðar dómarans sagði, að í málinu hefði verið lagður fram fjöldi gagna með ummælum mínum um ákærðu Jón Ásgeir og Jóhannes, um Baug hf., um fjölmiðla í eigu þess fyrirtækis, um eitt og annað í stjórnmálum, sem snertir þessa aðila, og um málið sjálft. Hér vísar dómarinn til þess, sem lesið var eftir mig í dómsalnum meðal annars héðan af síðunni á degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn eða fyrir réttum mánuði.

Í úrskurði sínum sagði dómarinn, að ekki yrði  annað sagt um ummæli dómsmálaráðherra í garð ákærðu og Baugs hf. baugssamsteypunnar en að þau væru mjög gagnrýnin. Hann taldi hins vegar, að þau gerðu mig ekki vanhæfan til að skipa sérstakan ríkissaksóknara í málinu.