12.12.2005 22:32

Mánudagur, 12. 12. 05.

Eftir fundarhöld fram eftir degi settist ég við það verk að fínpússa tímaritsgreinina um Schengen og urðu því aðrar skriftir enn að sitja á hakanum. Ég hafði frest til 12. desember til að skila henni og tókst það. Schengensamstarfið er margþætt og tryggir Íslendingum annars konar samstarfsleiðir við Evrópusambandið en EES-samningurinn.

Í dag hringdu þeir í mig vinir mínir í síðdegisútvarpi Bylgjunnar og spurðu mig um tvennt: yfirlýsingu ríkissaksóknara Svía um eitt lögregluumdæmi á Norðurlöndunum og frumvarp til breytinga á umferðarlögum, þar sem meðal annars er fjallað um vald starfsmanna vegagerðarinnar til eftirlits, en Landssamband lögreglumanna telur hættu á því, að verið sé að fara inn á verksvið félagsmanna sinna.

Mér finnst ágætt að ræða við þá félaga Þorgeir og Kristófer og þeir hafa líklega oftast rætt við mig af fjölmiðlamönnum um málefni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þeir hafa áhuga á lögreglu- og dómsmálum sömu sögu er að segja um Svein Helgason, sem nú er umsjónarmaður morgunútvarps RÚV. Skiptir miklu í samtölum við fjölmiðlamenn, að þeir hafi þekkingu og áhuga á því, sem þeir vilja ræða.

Sjálfsagt er nota alþjóðlegar mælistikur til að átta okkur á framvindu íslenska þjóðfélagsins, hins vegar er ekki jafnaugljóst, að unnt sé að mæla allt hér á kvarða annarra, eins og til dæmis hvað skólaganga á að vera löng eða hvort ráðherrar skuli víkja sæti eða ekki. Þetta sífellda fjölmiðlatal um, að í þessu eða hinu landinu hefði ráðherra vikið, ef þetta eða hitt hefði gerst þar, sem gerist hér, er marklaust, nema menn beri fleira saman en einhvern einstakan atburð.

Í sumum þjóðþingum tíðkast, að þingmönnum er vikið af þingi í nokkra daga fyrir framkomu þeirra í þingsalnum. Á að hefja umræður um slík úrræði hér á landi, af því að þau eru lögbundin sumstaðar í útlöndum?