29.11.2005 20:51

Þriðjudagur, 29. 11. 05.

Flutti framsöguræður fyrir þremur frumvörpum á þingi 1) um réttarvernd hugverkaréttinda, 2) um nýskipan vegna kosninga til kirkjuþings og 3) um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til að herða ákvæði þeirra gegn heimilisofbeldi.

Frumvörpin hlutu almennt góðar viðtökur þingmanna og voru síðan afgreidd til allsherjarnefndar í atkvæðagreiðslu undir klukkan 20.00. Hér ég þá komið öllum frumvörpum, sem ég ætla að flytja á haustþinginu, til nefndar.

Var klukkan rúmlega 17.00 í Iðnó við afhendingu Íslensku vefverðlaunanna 2005 en síðan mín hafði verið tilnefnd til verðlauna sem besti einstaklingsvefurinn. Úr hópi þeirra fimm, sem þá tilnefningu hlutu, fékk http://arni.hamstur.is/ fyrstu verðlaun og óska ég eigandanum til hamingju, um leið og ég þakka þeim, sem tilnefndu síðuna mína, sem hlaut þessi verðlaun árið 2003.

Horfði á Ólaf Ragnar Grímsson ræða bókina um Kristján Eldjárn Völundarhús valdsins í Kastljósi í gærkvöldi við Kristján Kristjánsson. Ólafur Ragnar lagði allt öðru vísu út af bókinni en Guðni Th. Jóhannesson, höfundur hennar, sem einnig var í þættinum og áréttaði enn, að Kristján Eldjárn hefði forðast það eins og heitan eldinn að blanda sér í stjórnmálaátök. Var engu líkara en Ólafi Ragnari væri mest í mun að túlka bókina sem svo, að ekkert væri sjálfsagðara en forseti Íslands léti að sér kveða á stjórnmálavettvangi -  þá túlkun tel ég alls ekki vera í anda Kristjáns Eldjárns, eins og ég kynntist honum á sínum tíma, en samtöl okkar um þessi mál ber aðeins á góma í bókinni.