14.11.2005 20:46

Mánudagur, 14. 11. 05.

Í morgun var þess krafist af verjendum Baugsmanna í héraðsdómi, að dómstólar fjölluðu um hæfi mitt til að skipa Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara í Baugsmálinu.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fyrsta fundar eftir prófkjör í hádeginu og voru menn mjög sáttir með niðurstöðu hins glæsilega prófkjörs.

Í upphafi þingfundar kvaddi Ingibjörg Sórún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sér hljóðs vegna ummæla Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á miðstjórnarfundi framsóknarmanna sl. föstudag um varnarviðræðurnar við Bandaríkjamenn. Þingumræðurnar leiddu í ljós, að Halldór er sömu skoðunar og áður, að hér eigi bandarískar herþotur að vera áfram í samkomulagi við Bandaríkjamenn.

Við Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, ræddum síðan varnarmálin í Kastljósi við þau Sigmar Guðmundsson og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur. Ég áréttaði þá skoðun mína, að rangt hefði verið á sínum tíma, að semja til ákveðins tíma um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, varnarsamningurinn einn ætti að duga og inntak hans að ráðast af aðstæðum hverju sinni, en hér væri nauðsynlegt að halda úti herþotum til að tryggja öryggi í lofthelginni. Þá hefði ég fyrir 10 árum bent á, að við Íslendingar þyrftum að búa okkur undir að axla sjálfir meiri ábyrgð á okkar eigin vörnum. Nú væri verið að efla landhelgisgæsluna og sérsveit lögreglunnar. Þá teldi ég að semja ætti við Dani og Norðmenn um eftirlit og öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi.