8.11.2005 22:02

Þriðjudagur, 08. 11. 05.

Flutti í dag framsöguræðu fyrir frumvarpi um breytingar á sifjalögum, þar sem meðal annars er mælt fyrir um, að sameiginleg forsjá yfir börnum eigi að vera meginregla við skilnað. Var frumvarpinu vel tekið af þingmönnum og er augljóst, að í allsherjarnefnd verður málinu sinnt af áhuga og leitað álits margra.

Klukkan 16.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og opnaði þar vefsíðu með rafrænni útgáfu Stjórnartíðinda, sem kemur nú sem birtingarháttur laga og stjórnvaldafyrirmæla í stað prentaðrar útgáfu Stjórnartíðinda, sem hefur verið við lýði í 131 ár.

Heyrði í fréttum hljóðvarps, að Falun Gong fólk er að mótmæla forseta Kína í London – var talað um fólkið sem „heimspekihóp“ – skrýtið nafn á mótmælendum sem stunda lífsorkuæfingar og blanda þær með óvild í garð kínverskra stjórnvalda.

Þetta er álíka skrýtin nafngift og sú kenning, sem heyra má í fréttaskýringarþáttum hér, að í raun sé ekkert sjálfsagðra í Frakklandi en mótmæla, sú aðferð við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri blundi einfaldlega í þjóðareðli Frakka og þess vegna séu þessi mótmæli núna næsta eðlileg. Stenst þetta, þegar til þess er litið, að mótmælendurnir eru almennt taldir standa utan við franska þjóðlífsstrauma? Vandinn sé sá, að þeir hafi aldrei lagast að frönskum háttum – nema kannski því að mótmæla – eða hvað?