20.10.2005 18:55

Fimmtudagur, 20. 10. 05.

Var meðal líkmanna í jarðarför Más Jóhannsssonar, fv. skrifstofustjóra Sjálfstæðisflokksins, sem var jarðsunginn frá Dómkirkjunni kl. 11.00.

Klukkan 14.00 var umræða utan dagskrár um sakóknara og fleira og flutti ég þar ræðu. Enginn þingmanna sagði mig vanhæfan til að skipa saksóknara í Baugsmálinu, en sumir töldu heppilegast fyrir málið og best fyrir mig, að ég segði mig frá málinu. Ég sagði það ekki kost í stöðunni, nema lög heimuluðu mér það. Ég gæti ekki valið mér mál til meðferðar eins og rétti af matseðli eða rúsínur úr tebollu. Þakkaði ég þingmönnum umhyggjuna.

Að lokinni þessari umræðu flutti ég ræðu fyrir frumvarpi til laga um breytingar á Schengen-lögum.

Klukkan 16.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík, þar sem haldið var málþing um dómstólavæðingu í samvinnu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og lagadeildar skólans undir stjórn Þórdísar Ingadóttur, LLM, sem er sérfræðingur við lagafeildina. Dr. Mads Bryde Andersen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, flutti framsögu og Ragnhildur Helgadóttir, lektor við lagadeildina, sagði álit sitt á framsöguræðunni. Síðan voru almennar umræður og þar tóku til máls Ragnar Aðalsteinsson hrl., Eiríkur Tómasson prófessor og Þór Vilhjálmsson, prófessor og fv. dómari.

Ég flutti ávarp í upphafi málþingsins og sagði til þess stofnað til að ræða það, sem á erlendum málum væri kallað judikalisering og snerist um mörkin á milli dómsvalds og löggjafarvalds og hvort dómstólar væru að fara of langt inn á svið löggjafans, en Mads Bryde Andersen telur að þannig sé málum háttað að því er mannréttindadómstólinn í Strassborg varðar.