10.10.2005 21:18

Mánudagur, 10. 10. 05.

Stórfrétt dagsins er að sjálfsögðu niðurstaða hæstaréttar í kærumálinu vegna Baugs. Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins.

Klukkan 14.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu með Björgu Thorarensen prófessor, sem stjórnar Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, en hún var að gefa út fyrsta hefti af reifunum á dómum Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna og þess vegna sagði ég nokkur orð á fundinum, en útgáfa þessara reifana er enn til marks um alþjóðvæðingu lögfræðinnar.

Á alþingi svaraði ég einni óundirbúinni fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni, Samfylkingu, sem ræddi um málaferli Jóns Ólafssonar í Skífunni gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor, út af ummælum, sem birtust á ensku á vefsíðu Hannesar og leiddu til þess, að dómari í London dæmi Hannes til að greiða Jóni 12 milljónir króna. Var Björgvin að velta fyrir sér réttarstöðu íslenskra netverja í þessu ljósi. Ég gat ekki annað en vísað til þess, að málið milli Jóns og Hannesar væri nú hjá íslenskum dómstóli og vildu menn breyta lögum vegna þess, væri rétt að sjá fyrst, hvað dómstóllinn segði. Þá benti ég á, að ítarlegar skýringar hefðu fylgt Lúganó-samningnum, þegar hann var lagður fyrir alþingi til fullgildingar og þær væri að finna á vefsíðu ráðuneytisins.

Klukkan 16.00 hitti ég dagskrárgerðarkonu og myndatökumann frá danska sjónvarpinu, sem eru hér að gera langan sjónvarpsþátt um Ísland og hafði hún meðal annars áhuga á að ræða við mig um qi gong. Ég svaraði á minni skandinavísku, sem hefur dugað mér bærilega í gegnum tíðina, þótt á henni séu hnökrar. Þau komu í ráðuneytið, heim til mín og síðan í þinghúsið - tók þetta næstum þrjá tíma allt saman.

Sá nýja útgáfu af Kastljósi og þótti vel til takast, á meðan mér gafst tóm til að horfa. Það var brugðið upp góðri mynd af hinu flókna Baugsmáli, bæði upphafi þess og núverandi stöðu.