26.9.2005 22:09

Mánudagur, 26. 09. 05.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 13. 30 í Valhöll. Þar sagði Einar K. Guðfinnsson af sér sem þingflokksformaður, þar sem hann er að verða sjávarútvegsráðherra en Arnbjörg Sveinsdóttir var einróma kjörin í hans stað. Þetta var einnig síðasti fundur þingflokksins, sem Davíð Oddsson sat sem þingmaður, en Ásta Möller kemur í hans stað. Þá kvaddi Gunnar I. Birgisson þingflokkinn en hann er orðinn bæjarstjóri í Kópavogi og tekur Sigurrós Þorgrímsdóttir við af honum.

Mér þótti fréttamenn hljóðvarps ríkisins taka sig á í kvöldfréttunum af Baugsmálinu, þeir voru hættir að lesa upp eða endursegja fréttir Fréttablaðsins en um helgina og í morgun hefði mátt ætla, að Kári Jónasson hefði ekki látið af störfum sem fréttastjóri hljóðvarpsins, þegar hann varð ritstjóri Fréttablaðsins, því að laugardag og sunnudag hafa fréttamenn lítið lagt annað til Baugsmála en frásagnir Fréttablaðsins.

Mér er sagt, að Hallgrímur Helgason, höfuðskáld Baugs, hafi lagt það til í sjónvarpsviðtali í morgun, að þjóðin losaði sig við okkur ráðherranna eins og lýs og flær.

Styrmir Gunnarsson hélt fund með starfsmönnum Morgunblaðsins í dag og lýstu þeir stuðningi við hann og hann ætlar ekki að segja af sér, honum þyki gaman að vinna á blaðinu. Þá er að sjá, hvort Baugsmenn grípi til viðskiptabanns á Morgunblaðið.

Og vódafón ætlar sjálft að óska eftir rannsókn á öryggi tölvupóstkerfanna hjá sér - en engin skýring hefur fengist á því, hvernig Fréttablaðið hefur komist yfir einka-tölvubréf til birtingar - Sigurður G. Guðjónsson sagði réttilega í Kastljósi í kvöld, að ekki væri unnt að sjá hvaða almannaheill kallaði á birtingu þessara tölvubréfa.

Jón Gerald Sullenberger gerði forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag að engu, þegar hann sagðist hafa veitt Jóni Steinari Gunnlaugssyni heimild til að senda einhver gögn til Styrmis Gunnarssonar. Hvers vegna skyldi Fréttablaðiö ekki hafa leitað staðfestingar á réttmæti fréttar sinnar, áður en hún var birt?

Tölvubréf, sem ég fæ, benda til þess, að almenningur geri sér sífellt gleggri grein fyrir því, hve alvarlegt er, að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum og fjarskiptafyrirtæki sé jafnmikil og raun ber vitni auk hættunnar á því að eigendavaldinu sé misbeitt í eigin þágu.