21.9.2005 22:01

Miðvikudagur, 21. 09. 05.

Fjölmiðlamenn óskuðu í dag eftir áliti mínu á framvindu Baugsmálsins og vísuðu til þess, sem Össur Skarphéðinsson sagði á vefsíðu sinni, þar sem hann fór ókvæðisorðum um ríkislögreglustjóra og samstarfsmenn hans. Ég svaraði þessu á þennan veg: „Vefsíða Össurar er góðra gjalda verð og hann viðrar þar skoðanir sínar, oft skemmtilega en stundum að því er virðist í dálitlu fljótræði. Í þessu tilviki er Össur til dæmis alltof hvatvís í dómum sínum en hann á eins og aðrir að gefa réttarkerfinu tíma til að vinna sitt verk. Árás Össurar á æðstu menn embættis ríkislögreglustjóra líkist óðagotsbréfi.“

Klukkan 15.00 var kynnt niðurstaða í vali á framkvæmdaaðila vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Athöfnin var í Þjóðmenningarhúsinu og varð fyrirtækið Portus fyrir valinu. Mér finnst tillagan glæsileg og er sannfærður um að húsið verður sú lyftistöng fyrir menningar- og þjóðlíf, sem ég hef vænst frá fyrsta degi síðan ég tók að mér að vinna að þeirri hugmynd að reist skyldi tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel á þessum stað.

Það var ríkisstjórnin, sem knúði á um að til þess yrði gengið að framkvæma drauminn um tónlistarhús og í janúar 1999 var kynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um málið að tillögu minni. Á árinu 2000 var ég í New York og fór þá í heimsókn til hljómburðarfyrirtækisins Artec, sem hafði verið til ráðgjafar við undirbúning verksins og hefur haldið því hlutverki síðan. Artec kom til sögunnar sem ráðgjafi, eftir að ég hafði rætt þetta mál við Vladimir Ashkenazy skömmu eftir að ég varð menntamálaráðherra árið 1995 og hóf að undirbúa málið. Mér þótti gleðilegt að sjá, að Ashkenazy er listrænn ráðgjafi Portus. Við Íslendingar eigum engan í okkar hópi, sem hefur meiri reynslu af tónlistarhúsum en Ashkenazy.

Markmiðið er að hið nýja hús verði risið árið 2009 og nú hafa verið valdir öflugir einkaaðilar til að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Ég held, að enginn geti á þessari stundu gert sér grein fyrir því, hvaða breyting verður á Reykjavík við þessar framkvæmdir. Við erum á leið inn á nýtt stig í mannvirkjagerð og munum eignast hús og tónlistarsal, sem stenst hinu besta í heiminum snúning.