18.9.2005 22:24

Sunnudagur, 18. 09. 05.

Var í réttunum í Fljótshlíðinni frá 10 til 12. Það rigndi dálítið og þoka lá yfir fjöllunum. Þannig veður hefði verið grábölvað í leitunum í gær.

Var að velta því fyrir mér, þegar ég hlustaði í dag á langa frétt í hljóðvarpi ríkisins um launagreiðslur og fundarsetur bankaráðsmanna Seðlabanka Íslands, hvort ný fréttastefna hefði komið með nýjum fréttastjóra. Fréttin sjálf, framsetning og flutningur var á þann veg, að illa samrýmdist því, sem maður er vanur úr þessari átt. Hið sama þótti mér á föstudag, þegar sagt var frá lendingu fjögurra Harrier orrustþotna á Reykjavíkurflugvelli. Þá var engu líkara en leitast væri við að gera ferðir þeirra eitthvað tortryggilegar eða að minnsta kosti hefðu flugmennirnir sýnt af sér of mikla varkárni miðað við ferðir farþegaþotna.