16.9.2005 20:53

Föstudagur, 16. 09. 05.

Mér þótti skrýtið að hlusta á Baldur Þórhallsson, lektor við Háskóla Íslands, lýsa yfir því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að grundvallarágreiningur væri í ríksstjórn og Sjálfstæðisflokknum um utanríkismál ef ekki þáttaksil í utanríkismálasögu þjóðarinnar vegna umræðna um það, hvort Ísland skuli sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða ekki. Spurningin snerist um það, hvort einungis ætti að gæta þröngra hagsmuna lands og þjóðar eða láta að sér kveða í þágu alþjóðasamfélagsins.

Að setja þetta mál inn í slíkt kenningarkerfi í alþjóðastjórnmálafræðum er ofrausn að mínu mati. Spurningarnar, sem þarf að svara, lúta að því, hvort skynsamlegt sé að verja fé og kröftum í baráttu fyrir setu í öryggisráðinu. Davíð Oddsson hefur dregið athygli að kostnaðinum, sem þessu fylgir og réttilega sagt hann mikinn. Hann hefur hins vegar ekki tekið af skarið í málinu. Það gerði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hins vegar í ræðu sinni á leiðtogaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 15. september.

Afstaða mín í þessu máli hefur um nokkurt árabil verið sú, að Ísland eigi að halda fast við framboð sitt, en það var fyrir 20 árum, að Geir Hallgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, tilkynnti starfsbræðrum sínum á Norðurlöndunum, að Íslendingar vildu komast inn í norrænu framboðsröðina til ráðsins og árið 1998 ákvað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra, að til framboðsins skyldi gengið. Stuðning minn við málið hef ég rökstutt í greinum og ræðum, sem má finna hér á síðunni.

Um klukkan 15.00 í dag var mikill hvinur í lofti og ég sá orrustuþotur fyrir utan glugga minn við Skuggasund. Við nánari athugun kom í ljós, að þetta voru fjórar breskar Harrier þotur á æfingaflugi en þær gátu ekki lent í Keflavík vegna þoku.