12.9.2005 21:18

Mánudagur, 12. 09. 05.

Fundarhöld mín í dag snerust að mestu um málefni löggæslu og öryggismál auk umræðna um lagafrumvörp á komandi þingi.

Ég sá það í blöðunum í morgun, að skrif mín hér á vefsíðuna undanfarið og pistillinn um helgina hafa kveikt áhuga blaðamanna, því að vitnað er í efni af síðunni í Morgunblaðinu, DV og Fréttablaðinu.

Mér þótti útlegging Kára Jónassonar, ritstjóra Fréttablaðsins, skrýtnust, því að hann býsnast yfir því, að ég hafi sagt hér á síðunni, að ég væri hræddur um, að gleðin myndi hverfa úr stjórnmálavafstrinu með ákvörðun Davíðs Oddssonar að fara í seðlabankann. Ég veit ekki til þess, að Kári hafi nokkru sinni tekið þátt í stjórnmálastörfum með Davíð eða setið með honum fundi, þar sem rætt er af alvöru um mál, án þess að gleyma gildi þess að slá á létta strengi. Ég er viss um, að þessi einstaki hæfileiki Davíðs hefur oft auðveldað honum að laða fram sátt í erfiðum málum.

Jónas Kristjánsson, ritstjóri hins Baugsblaðsins, DV, skrifar í dag leiðara um Davíð Oddsson sem „síðasta einræðisherrann á Íslandi“ og slær þar á svipaðan streng og Kári í Fréttablaðinu.

Það er engu líkara en þessum gamalreyndu blaðamönnum hafi verið gefin sú lína af yfirritstjórn Baugsmiðlanna, að nú skyldi sleginn sá tónn í skrifum um Davíð Oddsson, að hann hafi hvílt eins og mara á samstarfsmönnum sínum, Sjálfstæðisflokknum og þjóðinni allri. Menn megi ekki einu sinni eiga þá skoðun sína í friði, að stjórnmálasamstarf við Davíð sé og hafi verið skemmtilegt.