9.9.2005 1:15

Föstudagur, 09. 09. 05

Fór með gangnamönnum í Fljótshlíðinni inn að Felli en hafði því miður ekki tíma til að fara með þeim alla leið í náttstað. Það ringdi minna eftir því sem við riðum innar í hlíðina. Sendi Breka með þeim inn á fjallið svo að hann liðkaðist fyrir leitirnar í kringum Þríhyrning eftir viku.

Ég er undrandi á því, að hlusta á svokallaða fréttaskýrendur í útvarpi eins og þá Jóhann Hauksson á Fréttablaðinu og Birgi Guðmundsson hjá Háskólanum á Akureyri ræða um innri málefni Sjálfstæðisflokksins, án þess að ég verði var við, að þeir geri hina minnstu tilraun til að afla sér upplýsinga frá fyrstu hendi um það, sem þeir segja um einstaka menn eða málefni. Getsakir af þeim toga, sem þessir menn stunda í krafti þess, að þeir starfa við blað eða háskóla, eru á skjön við alla venjulega blaðamennsku, sem byggist á því, að menn afli sér heimilda og vísi til þeirra við útleggingar sínar.

Guðmundur Magnússon, blaðamaður á Fréttablaðinu, gerir því skóna í blaðinu í dag, að túlka megi orð mín hér í dagbókinni sl. miðvikudag á þann veg, að ég sé að hætta í stjórnmálum. Ef hann hefði viljað hafa það, sem sannara reynist, hefði Guðmundur hæglega getað sent mér töluvpóst og spurt, hvort túlka mætti orð mín á þennan veg. Hann hefur líklega grunað, að ég mundi svara honum neitandi, svo að hann kaus að bera eigin hugarburð á borð fyrir lesendur í þessum búningi: „Þess vegna eru ýmsir að spá því að hann fari sjálfur til starfa á öðrum vettvangi innan tíðar. Tíminn leiðir í ljós hvort það er rétt.“ Ég veit ekki við hvað á að kenna skrif af þessum toga. en eftir miðja síðustu öld þótti mönnum það almennt ekki til eftirbreytni að halda einhverju fram og segja síðan, að það hefði getað verið satt. Við erum nú á nýrri öld og læri menn ekki af sögunni falla þeir auðveldlega í pytti.