7.9.2005 16:19

Miðvikudagur, 07. 09. 05.

Sögulegur, sameiginlegur fundur þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins var haldinn í Valhöll klukkan 14.00 í dag. Á fundinum kynnti Davíð Oddsson þá ákvörðun sína, að hann mundi láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum um miðjan október og taka við starfi seðlabankastjóra 20. október, en 27. september myndi hann hætta sem utanríkisráðherra. Að tillögu Davíð samþykkti þingflokkurinn samhljóða, að Geir H. Haarde yrði utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

Á fundinum tóku margir til máls, þökkuðu Davíð frábær störf hans í þágu, flokks, lands og þjóðar og árnuðu honum og fjölskyldu hans heilla á nýjum vettvangi.

Eins og Davíð sagði á blaðamannafundi eftir þennan sameiginlega fund forystumanna flokksins er ákvörðun sem þessi ekki einföld, hann hefði tekið hana eftir mikla umhugsun, hann vissi þó ekki á þessari stundu, hvort hún væri rétt og kannski yrði aldrei unnt að komast að raun um réttmæti hennar.

Að sjálfsögðu hlaut að koma að því eftir langan og einstaklega farsælan feril í stjórnmálum, að Davíð tæki ákvörðun um að hverfa að öðru. Fyrir okkur, sem höfum starfað náið með honum í áratugi að sameiginlegum málefnum í blíðu og stríðu, eru þetta að sjálfsögðu mikil tímamót. Hitt er víst, að Davíð og samherjar hans eiga margt til gleðjast yfir, margri orrustu hefur lokið með góðum sigri, þjóðfélagið hefur tekið á sig nýja og betri mynd og lagður hefur verið grunnur að enn meiri framfarasókn, ef rétt er á málum haldið.

Matthías Johannessen, góðvinur foreldra minna, sagði oft, að sér hefði þótt gleðin hverfa úr stjórnmálavafstrinu með fráfalli þeirra. Ætli við séum ekki margir, sem hugsum þannig til Davíðs, þegar hann hættir sínu stjórnmálavafstri og hverfur að öðru. Hann sér alltaf eitthvað til að gleðjast yfir og megi gleðistundir hans verða sem flestar.

Var klukkan 20.00 í Kringlukránni á fundi okkar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna með íbúum í hverfunum þar um kring, þar sem við kynntum stefnu okkar í skipulagsmálum og ýmsum örðum málum fyrir utan að minnast með þakklæti starfa Davíðs, ekki síst sem borgarstjóra. Við vorum fjórir borgarfulltrúar, sem fluttum ræður: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson auk mín en Þorbjörg Helga varaborgarfulltrúi var fundarstjóri og lögðu margir fundarmenn gott til málanna, þar á meðal séra Þórir Stephensen, sem hvatti okkur eindregið til þess að hverfa frá hugmyndinni um brú út í Viðey og flutti fyrir því sannfærandi rök, hvaða skaðvaldur hún gæti verið.