5.9.2005 18:51

Mánudagur, 05. 09. 05.

Vetrarstarf qi gong iðkenda hófst í morgun klukkan 08.10 og var tíminn vel sóttur og æft undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar.

Síðdegis sat ég fund með sérfræðingum Evrópusambandsins og fulltrúa breskra stjórnvalda um þróun Schengen-samstarfsins og málsmeðferð á ráðherrafundum fram að áramótum, en ég fer með formennsku í Schengen-ráðherraráðinu á þeim tíma.

Fyrir viku, mánudaginn 29. ágúst, birtist klausa í Fréttablaðinu um að þann dag síðdegis væri ekki útilokað að það skýrðist á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hvort eitthvað væri hæft í þrálátum umræðum um hugsanlegt brotthvarf annars manns úr stjórnmálum en Halldórs Ásgrímssonar. Enginn fundur var haldinn í fulltrúaráðinu þennan mánudag, heldur var hann haldinn klukkan 17.30 í dag og þar talaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Kannski var þessi skrýtna klausa í Fréttablaðinu tilefni þess, að þeir fjölmiðlamenn, sem tala eins og þeir viti allt, ræddu það fram og til baka, að á þessum fundi fulltrúaráðsins myndi Davíð segja eitthvað um pólitíska framtíð sína. Fyrir framan Valhöll var hópur fréttamanna með myndatökumönnum og mátti ætla, að mikið væri í vændum, meira en venjulega, þegar sjálfstæðismenn koma saman til að taka ákvörðun um aðferð við að velja á framboðslista sinn. Það var einmitt gert samhljóða á fundinum að ákveða prófkjör og síðan flutti Davíð ávarp sitt og var klukkan ekki orðin 18.00, þegar ég var kominn heim og hlustaði síðan á það í hljóðvarpsfréttum ríkisins, að fundurinn stæði enn!