31.8.2005 22:33

Miðvikudagur, 31. 08. 05.

Fór klukkan 20.00 á íbúaþing miðborgar, Vesturbæjar og Austurbæjar okkar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, sem haldið var á Hótel Borg og var vel sótt. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Kjartan Magnússon og Gísli Marteinn Baldursson höfðu framsögu og svöruðu fyrirspurnum en Einar Eiríksson, formaður hverfafélags sjálfstæðismanna, stýrði fundi.

Gísli Marteinn brá upp korti af Vatnsmýrarsvæðinu, þar sem hann hafði teiknað inn bútaskipulag R-listans og eignarland ríkisins og sýndi fram á, að það sem eftir væri á forræði Reykjavíkurborgar væru í raun litlar spildur og þess vegna væri með öllu fráleitt að fara í einhverja alþjóðlega samkeppni um svæðið - getur Reykjavíkurborg ákveðið samkeppni um svæði í eigu annarra án samþykkis þeirra? Kortið staðfesti einnig betur en áður, hve fráleit og illa ígrunduð sú ráðstöfun er að úthluta Háskólanum í Reykjavík (HR) landræmu við austurjaðar flugvallarsvæðisins á hinu viðkvæma svæði milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Ríkið á þar að auki þríhyrnda sneið inn á þetta fyrirhugaða háskólasvæði og við það hefur ekkert verið rætt um ráðstöfun á því landi. Ég skil sífellt verr, hvers vegna stjórnendur HR létu glepjast af fyrirheitum Dags B. Eggertssonar um þetta land.

Á fundinum var áréttað, að sjálfstæðismenn eru til þess búnir á næsta kjörtímabili að leiða til lykta umræður um framtíð flugvallarins með það í huga, að í Vatnsmýrinni rísi íbúðarbyggð í bland við atvinnusvæði.

Undarlegt er, að enginn hafi vakið máls á þeirri staðreynd í umræðum um Vatnsmýrina og flugvöllinn, að á síðustu mánuðum hefur verið lögð ný austur-vestur braut í Vatnsmýrina norðanverða, sem sker hana frá miðborginni, það er Hringbrautin, og þetta er gert af því fólki, R-listanum, sem mest lætur með að það ætli að gera Vatnsmýrina að hluta af miðborginni! Þá hefur R-listinn verið með þá hugmynd að setja niður bensínstöð vestan við Umferðarmiðstöðina, sem myndi endanlega skera athafnasvæði Landsspítala og Háskóla Íslands í sundur.