5.10.2004 21:35

Þriðjudagur, 05. 10. 04.

Ríkisstjórn kom saman til fundar klukkan 09.30 og sat Davíð Oddsson þar í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra.

Í hádeginu hitti ég forystumenn Landhelgisgæslunnar og félaga í sprengjuleitarhópi hennar við Þjóðmenningarhúsið, þar sem þeir sýndu mér sprengjuleitarbíl, annan tveggja, sem gæslan hefur fengið að gjöf frá danska hernum. Síðan efndi ég til hádegisverðar með dönskum sérfræðingum, sem fylgdu gjöfinni til að þjálfa íslenska starfsbræður sína.

Fylgdist með umræðum um fjárlagafrumvarpið á alþingi, en enginn í stjórnarandstöðunni gerði fjárveitingar á verksviði dómsmálaráðuneytis að sérstöku umtalsefni.

Sótti hluta borgarstjórnarfundar, þar sem R-listinn kúventi varðandi Hallsveg og ákvað að hann skyldi verða tvíbreiður en ekki með fjórar akgreinar. Málið var á dagskrá borgarstjórnar að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna og dugði það eitt til þess, að R-listinn féll frá áformum um fjórar akreinar.