1.10.2004 0:00

Föstudagur, 01. 10. 04.

Ríkisstjórn kom saman til fundar klukkan 09.30.

Klukkan 11.15 efndi ég til reglulegs fundar með skrifstofustjórum dómsmálaráðuneytisins, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni mínum.

Klukkan 13.30 var alþingi sett, 131. þing. Séra Pálmi Matthíasson prédikaði og brýndi fyrir kirkjugestum, að Jesú hefði risið upp gegn lögmálinu - sem skírskotar til pólitískrar rétthugsunar nú á tímum.

Forseti Íslands flutti í ræðu sinni einskonar heimsslitaboðskap vegna loftlagsbreytinga og áhrifa á hafstrauma og taldi, að alþingi hefði heimssögulegu hlutverki að gegna til að berjast gegn þeirri vá - ræða hans minnti mig á heimsslitaspár hans fyrr á árum vegna óttans við kjarnorkustríð og þegar hann taldi nauðsynlegt að snúast gegn Bandaríkjastjórn til að berjast gegn þeirri vá.

Halldór Blöndal, forseti alþingis, flutti sköruglega ræðu til varnar alþingi vegna þess, að forseti í Íslands beitti í fyrsta synjunarvaldinu samkvæmt 26. gr. stjskr. með yfirlýsingu 2. júní 2004. Halldór sagði réttilega að synjunarvaldið væri leifar þess tíma, þegar konungar voru taldir hafa vald sitt og umboð frá Guði. Við ræðu Halldór ókyrrðust samfylkingarmenn og varð Helgi Hjörvar fyrstur þeirra til að ganga á dyr og fyldgu þeir Björgvin G. Sigurðsson og Einar Már Sigurðarson á hæla honum, en Mörður Árnason lamdi í borð sitt, áður en hann gekk út. Þeir Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hurfu einnig úr þingsalnum og Magnús Þór Hafsteinsson, formaður þingflokks frjálslyndra.

Mér þótti réttmætt hjá Halldóri að taka upp hanskann fyrir alþingi og minna á gildi þess og sögu. Alþingi á að sjálfsögðu dýpri rætur með þjóðinni en embætti forseta Íslands og fráleitt að ætla, að forsetaembættið geti sýnt alþingi í tvo heimana eða eigi að gera það. Sorglega lítil reisn er yfir þeim þingmönnum, sem sjá ástæðu til að yfirgefa þingsalinn, þegar forseti alþingis áréttar stöðu þings og heldur henni fram með sterkum rökum.

Um kvöldið var rætt um þetta mál stuttlega í Kastljósi þar sem Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri og fyrrverandi alþingismaður, varði rétt Halldórs Blöndals til að segja skoðun sína en sagðist aðspurður af Kristjáni Kristjánssyni þáttarstjórnanda ekki mundu hafa talað svona sjálfur. Þá sagði Kristján: „enda kurteis og prúður“ - mér datt í hug, að þarna talaði maður, sem teldi sig fulltrúa lömálsins - hinnar pólitísku rétthugsunar. Er Halldór Blöndal ókurteis og dónalegur, af því að hann segir skoðun sína? Hvar er réttari vettvangur fyrir forseta alþingis að verja þingið og virðingu þess en forsetastóll þingsins? Hvaða tilefni er betra til þess en setning alþingis?

Mér þótti skrýtnast að sjá samfylkingarfólkið - talsmenn umræðu- eða samræðustjórnmálanna - yfirgefa þingsalinn, þegar Halldór flutti skoðun sína. Hvernig á að stunda samræðustjórnmál, ef menn hverfa á braut, þegar þeir heyra eitthvað, sem þeim líkar ekki?