25.9.2004 0:00

Laugardagur, 25. 09. 04.

Var kominn út á Reykjavíkurflugvöll klukkan 11.40 til að fylgjast með flugslysaæfingu á vegum Flugmálastjórnar. Veðrið var leiðinlegt, suðvestan slagveður, en það aftraði okkur ekki frá því að sjá slökkviliðsmenn ráðast til atlögu við eld, sem átti að vera í flaki Boeing-þotu, sem hlekktist á í flugtaki í áttina að Öskjuhlíð með 90 farþega og áhöfn innan borðs. Við sáum þegar unnið var við að greina hina slösuðu og ákveða, hvert þeir skyldu sendir, fórum í stjórnstöðina í Skógarhlíð, á slysavarðstöðina í Fossvogi og miðstöð fyrir aðstandendur í Grensáskirkju, áður en ég sneri aftur um klukkan 15.00. Alls staðar var björgunarfólk og sjálfboðaliðar í óða önn að sinna mikilvægum verkefnum sínum af alúð.