21.7.2004 0:00

Miðvikudagur, 21. 07. 04

Um klukkan 09.00 hringdi Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, í mig og skýrði frá því, að þá um nóttina hefði Davíð Oddsson verið fluttur á sjúkrahús vegna kvala í kviðarholi. Skömmu síðar sendi forætisráðuneytið frá sér fréttatilkynningu um veikindi Davíðs.

Ég var með venjuleg miðvikudagsviðtöl í ráðuneytinu.

Þorsteinn, aðstoðarmaður minn, sonur Davíðs, sagði mér meira um veikindi föður síns.

Þingfundur hófst klukkan 13.30 og Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir afstöðu meirihluta allsherjarnefndar við upphaf annarrar umræðu um fjölmiðlafrumvarpið. Umræður stóðu fram yfir klukkan 20.00 en þá  hófst atkvæðagreiðsla. Þar sem við vorum aðeins 31 stjórnarþingmaður í salnum og stjórnarandstæðingar tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni , varð að afgreiða breytingartillögur með nafnakalli, það var ekki fyrr en kom að þvi að vísa málinu til þriðju umræðu, að einhverjir stjórnarandstæðingar réttu upp hönd.

Þessi háttur við atkvæðagreiðsluna réðst af því, að rafræna atkvæðagreiðslukerfið var ekki í sambandi, enda var þinghúsið í raun hálfkarað vegna endurbóta. Aðeins var unnt að nota þingsalinn sjálfan, skjöl voru fyrir framan hann á bráðabirgðaborði og þar sem símaþjónustan er venjulega hafði skjalaumsýslan aðstöðu.

Um klukkan 18.00 bárust þær fréttir af Davíð, að hann hefði verið skorinn og auk gallblöðru hefði verið tekið úr honum annað nýrað, þar sem fundist hefði æxli á því. Sátu þingmenn fyrir framan sjónvarpið í Skálanum og fylgdust með fréttum af þessu í kvöldfréttum sjónvarpsins.