18.2.2004 0:00

Miðvikudagur, 18. 02. 04.

Var með hefðbundin viðtöl í ráðuneytinu fyrir hádegi eins og jafnan á miðvikudögum. Auðveldara er að halda biðlistanum í lágmarki í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en í menntamálaráðuneytinu, því að mun færri biðja um viðtöl við mig hér en í mínu fyrra ráðuneyti. Umræðurefnið er annars eðlis hér en á hinum staðnum og margt átakanlegt í mannlegum samskiptum fæ ég að heyra í þessum trúnaðarsamtölum. Við sumu er unnt að bregðast en annað er þess eðlis, að ráðherra getur ekki haft nein afskipti af því.

Um klukkan 14.30 svaraði ég fyrirspurn Marðar Árnasonar á alþingi um áfengisauglýsingar.

Síðan hélt ég út á Keflavíkurflugvöll en klukkan 17.00 hélt ég með Icelandair til London - gisti þar úti á flugvelli. Sá í bresku blöðunum, að mikil umræða er á breskum stjórnmálavettvangi um viðbrögð við frjálsri för manna á hinu stækkaða Evrópusambandssvæði eftir 1. maí 2004. Íhaldsmenn gagnrýna Blair og stjórn hans fyrir ráðleysi.