25.1.2004 0:00

Sunnudagur, 25. 01. 04

Flaug klukkan 07. 45 til Stokkhólms til að sitja þar alþjóðlega ráðstefnu gegn þjóðarmorði.

Þegar á flugvellinum var augljóst að öryggisgæsla og móttökur yrðu sérstakar. Við Þorsteinn Davíðsson vorum leiddir út í sérstakan bíl við flugvélina og ekið með okkur í VIP-herbergi vallarins. Þar hittum við fulltrúa sænsku ríkisstjórnarinnar, sem var fylgdarmaður allan tíma, bílstjóra og bíl okkur til umráða auk lögreglubíls, sem ók á undan okkur, hvert sem ferðinni var heitið akandi. Hvarvetna á leiðinni til Stokkhólms (tæpir 50 km) voru lögreglumenn við allar aðreinar að hraðbrautinni og lokuðu henni fyrir almennri umferð. Hið sama gilti síðan á leiðum innan Stokkhólms og út á flugvöll við brottför, auk þess sem Grand Hotel, þar sem við bjuggum var innan stórs öryggissvæðis, sem var aðeins opið þeim, sem sýndu sérstök skilríki.