12.1.2003 0:00

Sunnudagur 12. 01. 03

Nú hefur hélað aðeins hér í Fljótshlíðinni og birt í einstakri veðurstillu. Fór og sinnti aðkomuhrossum, sem höfðu farið út fyrir rafmagnsgirðingu og inn á túnið. Síðdegis ætluðu Kjartan Gunnarsson og Sigríður Snævarr að heimsækja okkur. Vildi ekki betur til, þegar þau áttu um fimm mínútur ófarnar til okkar en bíllinn fór út af í lúmskri snögghálku fyrir neðan Breiðabólstað. Bíllinn gjöreyðilagðist, þau voru flutt með sjúkrabíl í bæinn, Sigríður brákaðist en annars var það fyrir Guðs mildi, að þau skyldu ekki stórslasast. Er í raun með ólíkindum, að bíllinn skyldi ekki leggjast saman velturnar. Lögreglan sagði mér, að þessi kafli á veginum væri slysagildra og er skrýtið, að ekki skuli vera þarna sérstök hættumerki.