13.12.2002 0:00

Föstudagur 13.12.02

Jólaleyfi þingmanna hófst um klukkan 16.00 í dag. Er það óvenjulega snemmt og er til marks um, hve friðsamleg þingstörfin hafa verið í haust, þótt kosingaþing sé. Hefur mikil breyting orðið að þessu leyti síðan ég settist á þing árið 1991. Þá var ég í forsætisnefnd og máttum við forsetar þingsins sitja nótt sem nýtan dag yfir endalausum umræðum og málþófi. Dugði tíminn fram að jólum ekki alltaf til að afgreiða þau mál, sem kröfðust afgreiðslu.   Engin einhlít skýring er á þessari breytingu. Fjárlagafrumvarpið var afgreitt fyrir viku, sem er óvenjulega snemmt, þegar það er frá, dettur spennan úr haustþinginu. Stjórnarandstaðan telur sér greinilega ekki hag af því að standa í stórræðum síðustu daga fyrir jól. Að þessu sinni voru það helst vinstri/grænir, sem létu eitthvað að sér kveða fyrir þinghlé og sperrtu sig vegna frumvarps um að breyta orkuveitu Akureyrarbæjar í hlutafélagið Norðurorku.Klukkan 17.00 efndu sjálfstæðismenn til jólateitis í Valhöll og meðal skemmtiatriða var lestur Davíðs Oddssonar úr nýrri bók sinni við góðar undirtektir.