10.7.1999 0:00

Laugardagur 10.7.1999

Við Rut fórum um hádegisbilið í Skálholt og hlýddum þar á sumartónleikana. Hófst dagskráin með erindi um verk Jóns Leifs, sem Árni Heimir Ingólfsson flutti. Sagði hann frá rannsóknum sínum meðal annars varðandi dauða Lívar, dóttur Jóns, en eitt helsta verkið á fyrri tónleikunum var magnað Erfiljóð Jóns um Lív, tveir þættir þess af þremur voru frumfluttir af Hljómeyki. Eftirminnileg messa eftir Tryggva Baldvinsson var frumflutt á seinni tónleikunum.