8.5.1998 0:00

Föstudagur 8.5.1998

Klukkan 9 um morgunin sótti ég fund Samiðnar á Grand hótel og ræddi um menntamál og starfsnám. Þennan dag kom aftur dálítill skriður á gang mála á Alþingi, þegar 2. umræðu um sveitarstjórnalögin lauk, greidd voru atkvæði um málið og því vísað til 3. umræðu. Stjórnarandstaðan hafði haldið uppi málþófi alla vikuna. Er málatilbúnaður hennar ósannfærandi, þegar litið er á forsögu sveitarstjórnalaganna og áformin um hálendið. Held ég, að þeir, sem hafa snúist af þessari hörku gegn sveitarstjórnalögunum, séu á villigötum, þegar litið er á efni málsins. Hafi ætlunin verið að koma höggi á stjórnarflokkana með þessum löngu ræðum, misheppnaðist það gjörsamlega. Um kvöldmatarleytið varð frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum að lögum.