16.11.2000 0:00

Fimmtudagur 16.11.2000

Dagur íslenskrar tungu. Um hádegisbilið fór ég í Heiðaskóla í Reykjanesbæ og hlýddi á skemmtilega dagskrá nemenda þar í tilefni dagsins auk þess sem ég fékk tækifæri til að skoða þennan einstaklega glæsilega skóla. Klukkan 16.00 var sýningin Frá huga til huga opnuð í Þjóðarbókhlöðunni og flutti ég þar ávarp. Klukkan 17.00 bauð ég til athafnar í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem ég afhenti Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, og Stóru upplestrarkeppninni og Dr. Richard N. Ringler sérstaka viðurkenningu. Klukkan 20. 00 var hátíðarsýning í Íslensku óperunni á Stúlkunni í vitanum eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Böðvar Guðmundsson, en sagan er eftir Jónas Hallgrímsson. Það er ekki oft sem tækfæri gefst til að sjá íslenska barnaóperu, en þessi metnaðarfulla ópera er samin og sýnd í tilefni af fimmtíu ára afmæli Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Bera kennarar og nemendur hans hita og þunga verksins.