13.5.1999 0:00

Fimmtudagur 13.5.1999

Klukkan rúmlega átta um morguninn sótti ég Gunnar Eyjólfsson leikara og fórum við saman í morgunmessu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði eins og við gerum saman nokkrum sinnum á ári. Skömmu eftir för mína í Páfagarð fór ég í klaustrið og ætlaði að segja nunnunum frá Rómarferðinni en það gekk ekki eftir. Að þessu sinni gáfu nunnurnar sér hins vegar góðan tíma til að ræða við okkur og spurðu þær meðal annars um úrslit kosninganna. Pólsku Karmelnunnurnar héðan hafa stofnað klaustur í Tromsö í Noregi og einnig eflt klausturstarf í Bremen í Þýskalandi. Klaustrið hér er vinsælt og komast færri að en vilja. Er mikil blessun að slíkur griðastaður skuli til í landi okkar.